Ostakökudesert með Dumle Snacks

Þar sem að við höfum verið mikið heima við í sumar höfum við haldið óvenju mörg matarboð upp á síðkastið. Um daginn hringdi Elfar í mig úr vinnunni, rétt fyrir kvöldmatinn, og spurði hvort að hann mætti taka með sér heim í mat fyrrum vinnufélaga sinn frá Stokkhólmi sem væri staddur hér á landi með fjölskyldu sinni. Ég er alveg hætt að æsa mig of mikið yfir matarboðum og bað hann endilega að gera það. Með aldrinum þá fer manni nefnilega að finnast einna mikilvægast njóta samverunnar við skemmtilegt fólk og ekki gera hlutina of flókna. Ég get þó ekki sagt að mér finnist maturinn farinn að skipta mig minna máli, hann skiptir mig alltaf miklu máli!? En stundum er hið einfalda best. Ég skaust því út í fiskbúð og bjó til góðan fiskrétt. Mig langaði svo mikið að gera ostaköku í eftirrétt en hana þarf að gera með fyrirvara. Ég ákvað því að nota hráefni sem notuð eru í ostaköku og útbúa eitthvað fljótlegt úr þeim. Úr varð þessi stórgóði eftirréttur sem sló í gegn. Þennan desert tekur enga stund að gera en er afar ljúffengur, ég mæli með honum!

Uppskrift f. 6:

  • 2 dósir Philadelphia rjómaostur (400 g)
  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml)
  • 1 dl rjómi
  • 1 vanillustöng, klofin og fræin skafin úr
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1/2 dl flórsykur
  • 150 g Digestive kex
  • 300 g jarðaber (og/eða önnur ber)
  • 175 g Dumle snacks

Rjómaosti, grískri jógúrt og rjóma er þeytt saman ásamt fræjunum úr vanillustönginni, vanillusykri, flórsykri þar til blandan verður kremkennd. Digestive kexið er mulið smátt. Dumle snacks er saxað smátt, jarðaberin skorin í bita. Því næst er öllum hráefnunum blandað í 6 skálar. Best er að byrja á því að dreifa hluta af mulda kexinu í botinn, þá rjómaostablöndunni því næst Dumle snacks og loks jarðaberjunum. Þetta er endurtekið einu sinni eða tvisvar eða þar til hráefnið klárast.


Filed under: Eftirréttir Tagged: desert fyrir matarboð, desert uppskrift, eftirréttur með dumle, eftirréttur með rjómaosti, fljótlegur eftirréttur, góður eftirréttur
  • Love
  • Save
    Add a blog to Bloglovin’
    Enter the full blog address (e.g. https://www.fashionsquad.com)
    We're working on your request. This will take just a minute...